Rómarráðstefnan; Ítalir blása lífi í atvinnulífið

Fjölsótt ráðstefna var haldin í húsakynnum ABI, ítölsku bankasamtakanna,í Róm nú í nóvember. Góður hópur gesta eða vel yfir 50 gestir sóttu ráðstefnuna og salurinn þar með fullsetinn. Góður rómur var gerður að ræðu ráðherra og margar spurningar komu úr sal til hans. Gestir voru almennt sammála um að ráðstefnan hefði verið vel heppnuð og tímabær.

Formaður ÍTÍS opnaði ráðstefnuna og þakkaði ABI og sendiráði Íslands fyrir að leggja ráðinu lið,að koma ráðstefnunni á koppinn, umfjöllundarefnið væri mikilvægt og jákvætt að þessi tvö ríki skiptust á skoðunum um reynsluna af því að glíma við fjármálakreppuna. Hann bauð síðan Berglindi Ásgeirsdóttur sendiherra að taka við stjórn ráðstefnunnar. 
Atvinnu- og nýsköpunarráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, rakti þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur gripið til á kjörtímabilinu til að koma böndum á ríkisfjármálin og sagði bjart framundan ef rétt væri haldið á málum. Næstu ár mundu þó ekki síður skipta miklu máli í þeim efnum  (ræða hans  – sjá hér ).

Fulltrúar efnhagsráðuneytisins á Ítalíu fjölluðu um stöðu efnahagsmála þar í landi og þær aðgerðir sem ítölsk stjórnvöld eru að vinna að til að blása lífi í atvinnulífið sem hefur fundið fyrir niðursveiflu síðustu missera og lítilli eftirspurn og einkaneyslu.

Bankastjóri Landsbanka, Steinþór Pálsson, rakti hvernig gömlu bankarnir voru yfirteknir og nýir reistir á þeirra grunni og fór síða yfir hverjar hafa verið og eru helstu áskorirnar fyrir íslenskt fjármálakerfi.

Framkvæmdastjóri ABI, Ítölsku bankasamtakanna, fór yfir stöðu ítalskra banka.  Hann minnti á að þeir hefðu staðið sterkar en flestir meðbræður sínir í nágrannaríkjum þegar stóra aldan reið yfir í október 2008, en hefðu á seinni árum liðið fyrir eftirköstin sem evrópskir bankar hafa verið að glíma við.
Þá hefði niðursveiflan í efnahagslífinu á Ítalíu einnig áhrif á bankana.  Hann áréttaði þó að ítalskir bankar stæðu enn traustum fótum og væru vel í stakk búnir til að sinna þörfum ítalsks atvinnulífs og heimila.